Hvað tekur útfararþjónustan að sér?
Útfararþjónusta Suðurnesja annast útfarir á Suðurnesjum og víðar.
Í þjónustunni felst m.a.:
Flutningur á hinum látna af dánarstað í líkhús
Ráðgjöf og aðstoð við val á kistu, líkklæðum og rúmfötum
Val á duftkeri ef um bálför er að ræða
Ákveða með tilhögun kistulagningar
Velja og bóka kirkju
Útvega prest, organista, söngfólk og hljóðfæraleikara
Ganga frá og panta legstað í kirkjugarði
Aðstoð við val á blómaskreytingum
Aðstoð við val á sálmum og prentun sálmaskrár
Aðstoð varðandi öflun líkbrennsluheimildar
Kross og skilti á leiði
Stjórnun á athöfn
Skipulagning útfarar
Venjan er að útför fari fram fimm til fjórtán dögum eftir andlát. Áður en ákvarðanir eru teknar um fyrirkomulag útfararinnar þarf að ganga úr skugga um hvorti hinn látni hafi haft séróskir varðandi athöfnina. Hafi hann sett fram ákveðnar óskir um útförina þarf að sjálfsögðu að virða þær eins og hægt er.
Hvort sem óskir hins látna liggja fyrir eða ekki þarf að taka afstöðu til fjölmargra atriða. Útfararþjónusta Suðurnesja getur annast alla þætti útfararinnar allt eftir óskum aðstandenda.
Prestur
Velja þarf prest sem sér um útförina. Við hjá Útfararþjónustu Suðurnesja sjáum um að panta þann prest sem óskað er eftir.
Staður og stund
Fara þarf yfir tilhögun varðandi stað og stund í samráði við prest, útfararþjónustu og kirkju. Útför getur farið fram í hvaða kirkju sem er en við sérhæfum okkur í útförum á Suðurnesjum.
Kistulagning
Kistulagning fer venjulega fram í sérstakri athöfn í kirkjunni. Þó er æ algengara að kistulagning og útför fari fram samdægurs. Allt fer þetta að sjálfsögðu eftir óskum aðstandenda.
Legstaður
Ef frátekinn legstaður er ekki fyrir hendi mun útfararstjóri útvega hann í samráði við aðstandendur. Hafa má í huga að hægt er að taka frá einn legstað við hlið hins látna.
Kistur og krossar
Fjölmargar gerðir af kistum standa til boða hjá Útfararþjónustu Suðurnesja. Hvítmálaðar kistur eru algengastar en auk þeirra fást eikar-, furu- og birkikistur. Einnig þarf að ákveða hvort merkja eigi leiðið með áletruðum trékrossi og er hann settur upp strax eftir jarðarför.
Önnur atriði
Taka þarf afstöðu til fjölmargra atriða. Þetta eru þau helstu:
Val á sálmum og annarri tónlist.
Sálmaskrá, velja myndir og ákveða fjölda eintaka.
Val á tónlistarfólki, svo sem organista, öðrum hljóðfæraleikurum, kórum og einsöngvurum.
Val á kistuskreytingum. Hægt er að fá Íslenska fánann og sveipa honum um kistuna. Við lánum hann sé þess óskað.
Fara þarf yfir hve margir og hverjir beri kistuna, 6 eða 8 manns.
Dánarvottorð
Heilbrigðisstarfsmenn, læknir eða krufningalæknir sjá um útgáfu dánarvottorðs. Tilkynna þarf andlát hjá skiptaráðanda/sýslumanni og leggja fram dánarvottorðið. Skiptaráðandi/sýslumaður heldur vottorðinu en hann útbýr skriflega staðfestingu sem afhenda þarf þeim presti sem jarðsyngur.
Í kyrrþey
Sumir óska eftir því að útför fari fram í kyrrþey en þá er útför auglýst eftirá eða að útför muni fara fram í kyrrþey.
Auglýsingar
Venja er að tilkynna andlát með auglýsingu í fjölmiðlum, á vefnum, í dagblöðum og stundum útvarpi. Stundum er tekið fram í auglýsingum að blóm og kransar séu afþakkaðir en þeim sem vilja minnast hins látna er bent á að snúa sér til líknarfélaga.
Streymi útfarar
Taka þarf afstöðu til hvort streyma eigi útför á netinu. Leyfi fæst fyrir streymið með þeim skilyrðum að tengli á útför sé lokað innan tveggja sólarhringa.
Útfararstyrkir
Aðstandendur þurfa að kanna rétt sinn um leið og útför er skipulögð. Mörg stéttarfélög taka þátt í útfararkostnaði félagsmanna sinna.